Dýr

Dýr í draumum er tákn um vini manns, sérstaklega hundar. Óróleg dýr eða á hlaupum eru fyrir bréfum eða fréttum frá nánum vinum. Síendurteknir draumar þar sem dýr eru höfuðtáknið benda til baráttu dreymandans við dýrið í sjálfum sér. Að temja dýr er betra tákn en að drepa það. Að vera sífellt á flótta undan einhverju dýri er ábending um að átök eigi sér stað í sálarlífi dreymandans og þarf hann að gera ráðstafanir til að greiða úr flækjunum. Draumar þar sem afkvæmi dýra eru áberandi geta bent til þess að dreymandinn eigi bágt með að horfast í augu við raunveruleikann, sé óþroskaður. Afskræmd dýr eða furðuverur benda til þess að dreymandinn hafi ekki nægilegt sjálfstraust og vanmeti ákvarðanir sínar. Finnist þér dýr í draumi ekki vilja sjá þig eða hlýða þér, skaltu gæta að hvort þú ert ekki of upptekinn af sjálfum þér.